Góð ráð í sorg
Hér koma gullmolar, hugleiðingar og tilvitnanir sem eru góðar og græðandi.
Einföld ráð til þeirra sem vilja hjálpa aðstandendum í sorginni:
Virtu sjálfan þig og eigin mörk.
Lausnarorðið er samhyggð, það að vera til staðar, viðurkenna sorg og söknuð syrgjandans án þess að tapa sjálfum sér í sorginni. Það getur verið gott fyrir syrgjandann að fá að segja hvernig honum líður. Þú gerir rétt ef þú hlustar. Láttu þínar eigin tilfinningar vísa þér leið, ekki fyrirfram lærðar formúlur frá öðrum. Snerting og eða faðmlag segir meira en mörg orð. Huggunin liggur meira í því hver maður er, heldur en hver maður segist vera.
Varastu að gefa ráð
Það besta sem hægt er að gera er að hlusta, ekki tala. Fólk verður að fara í gegn um sorgarferlið á eigin hraða, það gerir bara illt verra að reyna að hraða því, eða ætlast til að allir bregðist við á sama hátt.
Ekki segja:
-
"Ég veit hvernig þér líður" Þú veist það ekki.
-
"Allt verður betra á morgun" Það er ekki víst.
-
"Ég votta þér samúð" ef þú meinar það ekki. Syrgjandinn finnur muninn.
-
"Þetta gæti verið verra" Þú ert einn um það álit.
Vertu ekki að reyna að finna eitthvað jákvætt við dauðann eða að hella þér út í heimspekilegar vangaveltur andspænis sársauka sorgarinnar. Það hjálpar ekki. Ekki breyta um umræðuefni. Með því lokar þú á marga möguleika til að veita stuðning.
Ekki segja syrgjandanum hvernig honum á að líða.
Hann fer nokkuð nærri um það án þinnar hjálpar.