top of page

Acerca de

Ný dögun er elstu sorgarsamtök landsins og hefur starfsemi þeirra nú sameinast Sorgarmiðstöð. Ný Dögun er stolt af þeim grunni sem hún hefur lagt til annarra sorgarsamtaka.

Sagan

Ný Dögun var formlega stofnsett 8 des 1987. Starfsemin felst í stuðningi við þá sem eiga um sárt að binda vegna ástvinamissis ásamt almennri fræðslu og fyrirlestrum um sorg og sorgarviðbrögð.
 

Markmið

Markmið félagsins var að styðja syrgjendur og þá sem unnu að velferð þeirra. Tilgangi sínum náði Ný Dögun með eftirfarandi:

  • Efna til almennra fræðslufunda og samverustunda.

  • Veita þá upplýsingaþjónustu sem auðið er á hverjum tíma.

  • Vinna að stofnun stuðningshópa.

  • Greiða fyrir samskiptum stuðningsaðila og syrgjanda.

  • Standa fyrir námskeiðahaldi og þjálfun stuðningsaðila.

  • Efla almenna fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð í fjölmiðlum og sem víðast á opinberum vettvangi.

 

Hvernig nafn félagsins varð til:

Nóttin er tími myrkursins og dauðans. En nóttin verður að víkja fyrir döguninni. Fyrst er dögunin örlítil skíma í austri, sem er átt upprisunnar og nýs lífs. Í döguninni er líka nýtt upphaf. Í dögun ýttu forfeður okkar úr vör, á ótraustum bátskeljum, til að afla lífsbjargar. Fyrir syrgjandann verður nótt sorgarinnar löng og ljós vonarinnar víðs fjarri um sinn. En við lifum samt dagana. Við höfum ekki stjórn yfir þeim. Dagarnir líða þótt við upplifum þá sem í þoku og myrkri. Svo lifum við nýja dögun: Þegar hin langa ganga í gegnum langa nótt sálarinnar tekur endi förum við að greina örlitla birtu. Það er ekki vegna þess að við séum búin að gleyma sorginni heldur hefur hún færst inn í nýja vídd þar sem dauðinn einn, nóttin ein, ræður ekki lengur. Það er þar, sem lífið og lífslöngunin getur fæðst að nýju. En við ráðum ekki hvenær þetta gerist. Allt hefur sinn tíma. Dögunin er líka tími baráttu eins og hjá forfeðrum okkar. En í sorginni, í sorgarvinnunni, ýtum við úr vör og leitum að lífsbjörginni. Á ævikvöldi horfa menn fram á nótt, en henni mun líka fylgja dögun. Dögun fylgir öllum nóttum, fyrr eða síðar. 

                 

sendu línu til Sorgarmiðstöðvar

bottom of page